Við erum á leiðinni :)

Það er ekki oft sem ég verð virkilega reið og þarf þá mikið til. Í dag fór ég í skólan eins og alltaf á þriðjudögum ég átti tíma í vejledning(ráðgjöf varðandi ritgerðarskrif)hjá kennaranum ásamt stelpu sem ætlar að skrifa með mér ritgerðina í þessu fagi. Settumst niður og byrjuðum að spjalla og sögðum henni frá því hvað við ætlum að skrifa um og framvegis, síðan byrjar konan að spyrja okkur spurninga sem kom efninu ekkert við eins og hvaðan við kæmum og hvort við útlendingarnir vildum leggja það á okkur að skrifa ritgerð og það á dönsku. Við sögðumst báðar hafa gert það áður og gengið mjög vel EN þið eruð útlendingar og þurfið að láta dönskuna í ritgerðinni vera eins og hún væri skrifuð af dana segir konan, við segjum við hana að við látum lesa yfir fyrir okkur.......djöfulsins kennararnir eru ótrúlegir í þessu blessaða námi mínu, það er ekki verið að taka tillit til þess að maður sé útlendingur sem er að reyna að skrifa á dönsku og skoða þá frekar innihaldið í ritgerðinni heldur en að stimpla mann alltaf sem ÚTLENDINGINN. Það sem fer ógeðslega í taugarnar á mér er að þessi skóli gefur sig út fyrir að bjóða útlendingum að koma í skólan. Á síðustu önn var kennari að kenna mér sem byrjaði að segja það að þeir sem féllu í faginu væru útlendingar en ekki danirnir, ótrúlega uppbyggjandi fyrir mann. Er kominn á það að danirnir séu orðnir svo miklir rasismar að þeir gera sér ekki einu sinni grein fyrir því(get reyndar ekki stimplað alla dani). Er búinn að fá nóg af þessu............
Á þessu heimili vaknar lítil snót stundvíslega klukkan 6:15 á morgnana, enginn munur er á því hvort að það sé sunnudagur eða miðvikudagur. Hún vill fara í bólið klukkan 19:30 á kvöldin og vaknar svo kát, hress og ofboðslega svöng snemma á morgnana. Foreldrarnir eru misánægðir með þennan tíma sem stúlkan hefur valið sér þannig að það eru skiptivaktir um helgar. Þetta er í fyrsta skipti sem við upplifum að geta ekki sofið út um helgar en hver þarf svo sum á öllum þessum svefni að halda....... Nú eru miklar pælingar í gangi hvort að stúlkan eigi eftir að stilla sig inn á íslenska tíman þegar við mætum á svæðið þannig að við eigum kannski eftir að ræsa alla í elliheimilisblokkinni um fimmleytið á morgnana á virkum dögum og um helgar!!
Erum búinn að panta okkur far til Íslands í páskafrí. Við komum 28. mars og verðum til 12. apríl, langt og gott frí. Við erum ótrúlega spennt og krakkarnir svo kátir með þetta. Hervar ætlar að dvelja langdvölum í hesthúsinu segir hann og Margrét ætlar að hitta vinkonur sínar og Ester Lind frænku sína sem hún getur ekki beðið eftir að hitta. Ohhh það verður svo gott fyrir krakkana að fá ömmu-, afa-, frænku- og frænda knús.
Það er ekki annað hægt en að vera kátur, veðrið leikur við okkur það eru ca. 12 gráður í dag og sólin skín. Það er ótrúlegt hvað veðrið hefur áhrif á mann. Það er miklu skemmtilegra að vakna á morgnana þegar sólin skín inn um gluggan og fuglarnir syngja.....I love it!!
Það er heldur betur tómlegt í kofanum núna eftir að gestirnir fóru frá okkur. Það var yndislegt að hafa gesti. Elvira talaði upp úr svefni í nótt litla skottan og kallaði ,,Theodooo Theodooo,, já hún var að kalla á frænda sinn hann Theodór sem hún leitar að og leitar út um allt hús eftir að hann fór og skilur ekkert í þessu. Þau voru svo yndisleg saman frændsystkinin, þau leiddust út um allt og knúsuðu og kysstu hvort annað, bara yndislegust. Í gærkvöldi þegar Elvira átti að fara að sofa kallaði hún afa, Syvvvía og Theodoooo og vantaði svo knús og koss frá þeim fyrir svefninn, æi vonandi verður ekki langt í það að hún fái afa og frænku og frænda koss aftur.